Guðmundur Óskar Guðmundsson stundaði tónlistarnám frá 3ja ára aldri til tvítugs á ólík hljóðfæri og hefur starfað við tónlistarflutning og upptökustjórn, verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum, s.s. Hjaltalín og Tilbury, leikið á tónleikum víða um heim og sent frá sér plötur. Hann hefur hlotið tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna og fengið þau í ólíkum flokkum. Hann samdi tónlist fyrir Hafið, Engla alheimsins ásamt Hjaltalín og Sjálfstætt fólk ásamt Högna Egilssyni í Þjóðleikhúsinu og var tónlistar- og hljómsveitarstjóri í Djöflaeyjunni. Hann er tónlistar- og hljómsveitarstjóri í söngleiknum Níu líf í Borgarleikhúsinu.
Hann er tónlistarstjóri í Ástu í Þjóðleikhúsinu í vetur og annar höfunda tónlistar.
Nánar um feril:
Guðmundur Óskar. Biography.
Guðmundur Óskar hóf tónlistarnám þriggja ára gamall í Tónlistarskóla Keflavíkur og stundaði nám á hin ýmsustu hljóðfæri fram yfir tvítugt og hefur síðan þá starfað við tónlistarflutning og upptökustjórn.
Árið 2004 stofnaði Guðmundur Óskar hljómsveitina Hjaltalín, ásamt skólasystkinum sínum úr MH. Fyrsta breiðskífa Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons (2007) vakti mikla athygli og var ljómsveitin valin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlununum og Högni Egilsson, söngvari hljómsveitarinnar hlaut verðlaun sem lagahöfundur ársins.
Árið 2018 gerði hljómveitin nýja útgáfu af lagi Páls Óskars og Togga, Þú komst við hjartað í mér og var það valið lag ársins á íslensku tónlistarverðlaunum sama ár.
Hjaltalín fylgdi frumraun sinni eftir með sinni annarri breiðskífu, Terminal árið 2009. Hún hlaut mikið lof gagnrýnenda, sérstaklega fyrir metnaðarfullar útsetningar á lögum plötunnar og nýjan hljóm og var hún valin Poppplata ársins á íslensku tónlistarverðlaununum árið eftir. Frá árinu 2007 hefur hljómsveitin ferðast til Bandaríkjanna, um kjörvalla Evrópu og Skandinavíu til að kynna tónlist sína. Í stuttum stoppum á Íslandi notaði hljómsveitin tækifærið til að halda stóra og metnaðarfulla tónleika. Má þar nefna tónleika með stórri kammersveit á Listahátíð Reykjavíkur árið 2009 og svo ári síðar í Háskólabíói ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og Daníel Bjarnasyni. Þeir síðarnefnu voru teknir upp í hlóð og mynd og gefnir út á hljóð -og mynddisk, Alpanon árið 2010.
Platan Enter 4 kom út árið 2012 og fékk hún tilefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir hljómplötu ársins auk þess sem hljómsveitin var tilefnd sem flytjandi ársins. Í september sama ár var hljómsveitin Hjaltalín fengin til að semja tónlist við bandaríska, þögla bíómynd sem ber heitið Days of gray. (Leikstjóri: Ani Simon). Myndin var frumsýnd á Íslandi á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember 2012 undir lifandi tónlistarflutningi Hjaltalín. Árið 2013 kom út platan Days of gray , sem inniheldur valin tónverk úr kvikmyndinni.
Í september árið 2019 hélt hljómsveitin stóra útgáfutónleika fyrir næstu plötu í Eldborgarsal Hörpu og voru þeir tónleikar tilnefndir til íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Tónlistarviðburður ársins árið 2020.
Nokkrum mánuðum eftir útgáfutónleikana kom síðasta plata Hjaltalín út eða í ársbyrjun 2020 og hlaut hljómsveitin íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum lagahöfundur ársins og lagið Baronesse var tilefnt sem lag ársins.
Árið 2009 gerði Guðmundur hljómplötu með Sigríði Thorlacius, Á ljúflingshól sem er safn laga eftir bræðurna Jónas og Jón Múla Árnasyni í nýjum útsetningum.
Guðmundur stjórnaði upptökum og samdi lög ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni og Sigríði Thorlacius fyrir jólaplötu þeirra, Jólakveðja, sem kom út fyrir jólin 2013. Lögin voru samin við ljóð eftir Davíð Stefánsson, Jónannes úr Kötlum og Höllu Eyjólfsdóttur og fleiri.
Guðmundur er meðlimur í hljómsveitinni Tilbury sem hlaut mikla athygli í kjölfar útkomu frumraunararinnar Exorcise (2012). Hljómsveitin gaf svo út aðra breiðskífu ári síðar sem bar heitið Northern Comfort.
Lagið Tenderloin hlaut tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir lag ársins árið 2012.
Guðmundur hefur stjórnað upptökum á nokkrum plötum Snorra Helgasonar, Autumn Skies (2013), Vittu til (2016), Margt býr í þokunni (2017) og barnaplötunni Bland í poka (2019).
Platan Margt býr í þokunni var tilefnd sem plata ársins í opnum flokki íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2017.
Árið 2015 hóf Guðmundur samstarf með Helga Björnssyni, söngvara. Þeir sömdu saman lögin á plötunum Veröldin er ný (2015) og Ég stoppa hnöttinn með puttanum (2018) og stjórnaði Guðmundur upptökum á þeim plötum.
Platan Veröldin er ný var tilnefnd sem plata ársins á íslensku tónlistarverðlaununum 2015.
Guðmundur stjórnaði upptökum á breiðskífunni Dætur með Ylju sem kom út árið 2018. Platan var tilefnd sem plata ársins í flokknum Þjóðlagatónlist auk þess sem Guðmundur hlaut tilnefningu sem upptökustjóri ársins fyrir þá plötu.
Guðmundur Óskar hefur stjórnað upptökum á tveimur síðustu plötum Bubba Morthens, Regnbogans stræti sem kom út árið 2019 og Sjálfsmynd sem kom út á þessu ári, 2021.
Platan Regnbogans stræti hlaut tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir rokkplötu ársins
Leikhús:
Guðmundur samdi, ásamt hljómsveit sinni Hjaltalín tónlistina við leiksýninguna Engla alheimsins í uppsetningu Þjóðleikhússins árið 2013.
Í samvinnu við Högna Egilsson hannaði Guðmundur hljóðmynd og samdi tónlist við leiksýninguna Sjálfstætt fólk, sem var jólasýning Þjóðleikhússins árið 2014. Valin tónverk úr sýningunni voru hljóðrituð á geisladisk undir nafninu Independent People.
Guðmundur tónlistar -og hljómsveitarstjóri í söngleiknum Djöflaeyjunni í uppsetningu Þjóðleikhússins haustið 2016 en í þeirri sýningu var frumsamin tónlist úr smiðju Memfismafíunnar.
Guðmundur var bassaleikari og aðstoðar-hljómsveitarstjóri í Elly, sem var sett upp í Borgarleikshúsinu árið 2017 og sló þar öll sýningarmet og var sýnd yfir 200 sinnum. Tónlistin úr sýningunni var gefin út á geisladisk sem seldist vel og fór platan í gull hjá Félagi hljómplötuframleiðanda árið 2018.
Guðmundur samdi tónlist við Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstórn Sigurðar Sigurjónssonar sem var jólasýning Þjóðleikhússins 2017.
Guðmundur Óskar er tónlistar -og hljómsveitastjóri í söngleiknum 9 líf í Borgarleikhúsinu.