/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Ásta Sigurðardóttir

/

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifar:

 

Ásta Sigurðardóttir, 1930 –1971

„Uppi unaðsgaukur“ – þannig endar smásaga Ástu Sigurðardóttur, „Skerpla“.[1]

Andspænis þeim orðum hugsa þeir sem þekkja spáfuglinn hrossagauk kannski um andstæðuna: niðri nágaukur. Og milli slíkra andstæðna má sjá líf Ástu sem í sjónhending. Það var sem togað milli hljómmikilla vængja á hreyfingu í upphæðum og kyrra, ómlausra á jörðu niðri; hún lifði svo geyst. En hún skynjaði líka veröldina á annan hátt en flestir aðrir. Samskynjun var einkenni hennar; hún hafði hljómsýn, sá liti um leið og hún heyrði lög, upplestur eða rímur kveðnar.

Samskynjun er arfgeng og ósjálfráð en er talin geta eflst á unglingsárum. Hvernig ætli það hafi þá verið að koma eins og Ásta, bara fjórtán ára, frá Litla-Hrauni, einangruðum sveitabæ á Snæfellsnesi til Reykjavíkur, ári fyrir lok seinni heimstyrjaldar? Koma frá stað þar sem náttúruhljóðin ein voru ríkjandi, mófuglarnir kviðruðu í kyrrðinni og vindur og brim fluttu máttugustu tónverkin – inn í tæknivædda borg þar sem háreysti flutningabíla og krana blönduðust sjávarhljóðunum á höfninni og sundurleitir tónar fuglanna við Tjörnina runnu saman við flugvélardyn? Hljóð og litir allt í einu öll önnur en fyrr; og áreitið: Hvaða áhrif hafði það?

Broddi Jóhannesson, seinna Kennaraskólastjóri, skildi fyrr en flestir Íslendingar hvílíka sérstöðu samskynjun veitir mönnum. Hann bað Ástu strax á fyrstu Reykjavíkurárum hennar að lýsa upplifun sinni. Stúlkan lét lítið af: „[litaskynjunin] er oftast nær hversdagsleg og sjálfsögð eins og hver önnur skynjun.“[2] Sennilega hefur samskynjun Ástu þó haft djúpstæðari áhrif á líf hennar en menn hafa áttað sig á. Sú skynjun gæti verið sjálf rót þess að hún varð allt í senn ljóðskáld, myndlistarmaður og höfundur smásagna jafnt sem listilegra ritgerða. Hljómsýnin hefur líka vísast tengst líkingasmíð hennar og valdið því að skynjun hennar var almennt öflugri en ella. Hún segir að minnsta kosti sjálf:

Flest rímnalög eru frámunalega andstyggileg en á meinlausan hátt, þ.e.a.s. þau særa aðeins fegurðartilfinninguna eins og blautir og myglaðir strigapokar, heyruddi eða því um líkt. Öðru máli gegnir með Barcarolle, sem ræðst á sálina með yfirnáttúrulegum myndum og skerandi sterkum litbrigðum. Áhrif þess vara lengur en lagið og eru mjög óhugnanleg.[3]

Oftast er samskynjunin talin kostur; hún felur í sér gáfuna til að tengja saman gagnólík svið og er þar með sögð undirstaða listrænna hæfileika auk þess sem hún á að styrkja minni og þekkingarleit. Nú eru þó komnar fram vísbendingar um að henni geti fylgt kvillar eins og kvíðaröskun en kvíði og angist létu Ástu ekki óáreitta á lífsleiðinni ef marka má kveðskap hennar.

Eins og fleiri af hennar kynslóð, gekk Ásta, nánast beint út úr ljóstýrum torfbæjarins inn í raflýsta veröld borgarinnar; hætti að stinga upp mó, mjólka kýr og hlaupa mjóar fjárgötur en fór í skóla, skaust í búðir eða á kaffihús og spígsporaði jafnvel um breið steinlögð stræti. Í farteskinu að heiman hafði hún ekki bara samskynjunina; þar var líka meðfædd uppreisnargirni sem fékk hana barnunga til að rísa gegn trú og aga aðventistans, móður hennar; bókaást og þekking á skáldskap bændasamfélagsins aftur um aldir en ekki síst rík réttlætiskennd og róttækni í hugsun sem gerði hana tortryggna andspænis öllu valdi og varð til þess að hún dró hlut þeirra sem því voru beittir. Hugsi maður um unglinginn Ástu geta umskiptin í lífi hennar eftir að hún kom til Reykjavíkur orkað ógnvænleg. Á nokkrum árum tók hún ekki bara fullnaðarpróf og landspróf og horfði á foreldra sína flytja af jörðinni sem hún ólst upp á; hún eignaðist dreng, lauk Kennaraskólanum, kynntist skáldum og listamönnum samtímans og breyttist í gullfallega unga konu. Þá konu bjó hún reyndar markvisst til; hún litaði hárið á sér svart og varirnar rauðar; faldi sveitastúlkuna og náttúrubarnið en setti upp andlit tálkvendisins til að mæta umhverfinu.

Móðir Ástu tók að sér uppeldi drengsins hennar en sjálfa langaði Ástu ekki til að kenna þótt hún væri komin með réttindi. Hún vildi skapa og umgangast skapandi fólk, fór þess vegna á myndlistarnámskeið, málaði og gerðist nektarmódel hjá listnemum; sat fyrir daglangt í óupphituðum kjallaranum hjá Ríkarði Jónssyni á Grundarstígnum, jafnvel í hörkugaddi, og brá ekki svip.[4] En hún sinnti líka skrifum. Uppúr 1950 fór hún að birta smásögur sem vöktu aðdáun glöggra bókaunnenda. Þeir skynjuðu að kominn var fram höfundur sem lét hrikta í stoðum og tók á ýmsum málum er legið höfðu í þagnargildi. Í sögunum birtist ný persóna, kvenmynd sem minnir á konur í framúrstefnuhópum Parísar á millistríðsárunum. Sú reykir og drekkur fram á nætur, ásælist opinskátt karlmenn og er rekin úr samkvæmum og bílum góðborgara; stöndugur borgari gerir sig jafnvel líklegan til að nauðga henni en drykkjumaður og verkamenn, sem mæta henni lerkaðri, rétta henni hjálparhönd. Í fyrstu sögunni, „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“[5] ber aðalpersónan nafnið Ásta. Með Draumnum, sem segir frá tilfinningum konu sem fer í ólöglega fóstureyðingu, fylgja hins vegar dúkristur; á tveimur þeirra má sjá karlmann sem ýmsum þótti einsýnt að væri Geir Kristjánsson rithöfundur, sambýlismaður Ástu um nokkurra ára skeið.[6] Ögrun þessara sagna við ríkjandi hugmyndir um stöðu konunnar í samfélaginu og siðferðisreglur þess, skráðar og óskráðar, var því markviss og að sínu leyti opinská. Og þá lét hneykslun reykvískra smáborgara auðvitað ekki á sér standa. Ögruninni var mætt með svæsinni dómhörku og grimmd og það tók á þótt Ásta léti ekki af uppreisn sinni. Smásagnasafn hennar, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns kom út árið 1961 og með því skipaði hún sér á bekk með fremstu rithöfundum þjóðarinnar. En orðspor hennar var samt og fyrr: Bekkurinn minn í barnaskóla fór sérstaka ferð á bókasafnið til að skoða bókina „með dónamyndunum“. Í bók Ástu voru semsagt nokkrar dúkristur hennar, þar af ein af berbrjósta konu og önnur af berrössuðu barni …

Í eintaki af Draumnum sem Ásta gaf Thor Vilhjálmssyni einhvern tíma á sjötta áratugnum er svofelld áritun: „Thor Vilhjálmsson, hagaðu þér ypparlega (mátulega þó) til þess þú verðir skáld og stórskáld. Hvenær hættirðu að drekka?“[7]. Hvaða skilning ætti að leggja í spurninguna? Snýst hún um að Thor hafi hætt að drekka einu sinni sem oftar eða er Ásta að hvetja hann til að hætta drykkju? Sé það síðara raunin er spurningin dapurleg í ljósi þeirrar stefnu sem líf Ástu tók. Með árunum hneigðist hún æ meira til drykkju. Eftir að þau rugluðu saman reytum sínum (1959), hún og skáldbróðir hennar Þorsteinn frá Hamri og eignuðust hvert barnið á fætur öðru, kvað þó rammar að drykkjunni en fyrr. Þótt Ásta héldi áfram að skrifa birti hún nú fátt; hún réð ekki við að samþætta hlutverk skáldsins/listamannsins og móðurinnar og svo fór að þau Þorsteinn slitu samvistum en börnin voru send í fóstur. Seinna giftist Ásta Baldri Guðmundssyni og bjó með honum til æviloka.

Hafi Ástu frá náttúrunnar hendi verið gefin samstilltari skynfæri og öflugri skynjun en gerist og gengur, lögðu samfélagsþróun og menningarástand sitt til þess að klofningur og togstreita einkenndu líf hennar allt, uns hún sagði skilið við það, rétt rúmlega fertug. Reykvíkingum tileinkaði hún kaldhæðnislega smásagnasafn sitt. En á Kennaraskólaárum sínum hafði hún lýst einu af kennileitum höfuðborgarinnar. Í óprentuðu ritgerðinni, Austurstræti, sést hvað Ásta hafði næmt auga fyrir umhverfi sínu en líka hvernig bernsk skáldsýn hennar var tilbúin að draga úr ágöllum þess:

Í dældunum sitja forarpollar. Fólkið krækir fram hjá þeim. En í bjarma rafljósanna á kyrrum kveldum verða jafnvel forarpollar ómissandi þáttur í samstillingunni. Það glampar á þá eins og gull. Og hvað sakar þá, þótt sori sé undir?[8]

En svo kom reynslan – og þegar upp var staðið voru forarpollarnir bara forarpollar.

 

[1] Ásta Sigurðardóttir, „Skerpla“, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, Reykjavík: Helgafell, 1961, bls. 96.

[2] Sama, Litheyrn, KSS 172. Sjá einnig Friðrika Benónýs, Minn hlátur er sorg. Ævisaga Ástu Sigurðardóttur. Reykjavík: Iðunn, 1992, bls. 43.

[3] Sama stað, sjá einnig Friðrika Benónýs, Minn hlátur er sorg, bls. 42–43.

[4] Sverrir Haraldsson. Munnleg heimild, samtal við BSK, 1978.

[5] Sama, „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“, Líf og list 2/1951, bls. 14–17.

[6] Sama, 1952. Draumurinn, Reykjavík: [s.n.].

[7] Guðmundur Andri Thorsson, Og svo tjöllum við okkur í rallið. Bókin um Thor. Reykjavík: JPV-útgáfa, 2015, bls. 96.

[8] Ásta Sigurðardóttir, Austurstræti, Lbs 300 NF.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími