Arnar Jónsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964. Hann hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið og víðar. Meðal verkefna hans hér eru Edda, Rómeó og Júlía, Útsending, Horft frá brúnni, Dagleiðin langa, Lér konungur, Pétur Gautur, M. Butterfly, Ríta gengur menntaveginn, Abel Snorko býr einn, Sjálfstætt fólk (1999 og 2014), Veislan og Jón Gabríel Borkmann. Meðal kvikmynda sem hann hefur leikið í eru Útlaginn, Atómstöðin og Á hjara veraldar. Hann hefur farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur fyrir Veisluna.
Nánar um feril:
Arnar útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964. Arnar Jónsson hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið og víðar á um fimm áratuga leikferli sínum.
Hann leikur nú í Rómeó og Júlíu.
Meðal nýjustu verkefna Arnars við Þjóðleikhúsið eru Útsending, Horft frá brúnni, Álfahöllin, Sjálfstætt fólk, Eldraunin, Jónsmessunótt og Macbeth. Hann lék einnig einleikinn Sveinsstykki, sem var settur upp í samstarfi við Hið lifandi leikhús. Hann lék hér einnig nýlega James Tyrone eldri í Dagleiðinni löngu, titilhlutverkið í Lé konungi, lögmann Eydalín í Íslandsklukkunni, Millu í Utan gátta, Simic í Engisprettum og Malvólíó í Þrettándakvöldi.
Af öðrum minnisstæðum hlutverkum hans hér má nefna Leslie Williams í Gísl, Fadinard í Ítalska stráhattinum, Leonidik í Fyrirheitinu, Jóa í Syni skóarans og dóttur bakarans, Pavel Rjúmín í Sumargestum, James Tyrone yngri í Dagleiðinni löngu inn í nótt, Platonof í Villihunangi, Bjarna í Í smásjá, Jóhann í Yermu, Pétur í Bílaverkstæði Badda, Pétur Gaut eldri í Pétri Gaut, Gallimard í M. Butterfly, Frank í Ríta gengur menntaveginn, skemmtistjórann og biskupinn í 13. krossferðinni, Harry Hyman í Glerbrotum, Sigurbjörn í Tröllakirkju, Lazar Wolf í Fiðlaranum á þakinu og Vershínín undirofursta í Þremur systrum. Arnar fór með titilhlutverkið í Abel Snorko býr einn, hlutverk Þeseifs konungs í Fedru, lék Þórð í Niðurkotinu í Bjarti og Bjart í Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki, Arkadí Tsjædse, stigamanninn Íraklí og fleiri hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus, Kreon konung í Antígónu, Frank Odie í Vilja Emmu, Helge í Veislunni og Jóa hross í söngleiknum Með fullri reisn. Arnar fagnaði fjörutíu ára leikafmæli sínu hér með titilhlutverkinu í Jóni Gabríel Borkmann. Hann fór með hlutverk Jóns biskups Arasonar í Öxinni og jörðinni, lék Tupolski í Koddamanninum og ýmis hlutverk í Virkjuninni.
Meðal hlutverka Arnars utan Þjóðleikhússins má nefna Fandó í Fandó og Lis hjá Grímu, Arlekínó í Tveggja þjóni og Artúr í Tangó hjá Leikfélagi Reykjavíkur og titilhlutverkið í Galdra-Lofti í Leiksmiðjunni. Arnar lék Don Juan í Steingestinum, Makka hníf í Túskildingsóperunni, Henry Higgins í My Fair Lady og Al í Undir berum himni hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann lék titilhlutverkið í Kaj Munk í Kirkjuleikhúsinu. Arnar var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins og lék þar meðal annars hlutverk Þorleifs Kortssonar í Skollaleik og titilhlutverkið í Don Kíkóta. Auk þess lék hann einleikinn Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson í Loftkastalanum, en verkið var sérstaklega skrifað fyrir Arnar.
Arnar hefur leikið í mörgum kvikmyndum, meðal annars burðarhlutverk í Útlaganum, Atómstöðinni, Á hjara veraldar, Maríu og Dansinum. Hann hefur einnig farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi.
Arnar hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir leik sinn í Veislunni. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 1971.