fbpx
/
Starfsfólk Þjóðleikhússins

Arnar Jónsson

/

Arnar leikur í Útsendingu í Þjóðleikhúsinu leikárið 2019-2020

Arnar útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1964. Arnar Jónsson hefur leikið fjölmörg burðarhlutverk við Þjóðleikhúsið og víðar á um fimm áratuga leikferli sínum.

Meðal nýjustu verkefna Arnars við Þjóðleikhúsið eru Horft frá brúnni, Álfahöllin, Sjálfstætt fólk, Eldraunin, Jónsmessunótt og Macbeth. Hann lék einnig einleikinn Sveinsstykki, sem var settur upp í samstarfi við Hið lifandi leikhús. Hann lék hér einnig nýlega James Tyrone eldri í Dagleiðinni löngu, titilhlutverkið í Lé konungi, lögmann Eydalín í Íslandsklukkunni, Millu í Utan gátta, Simic í Engisprettum og Malvólíó í Þrettándakvöldi.

Af öðrum minnisstæðum hlutverkum hans hér má nefna Leslie Williams í Gísl, Fadinard í Ítalska stráhattinum, Leonidik í Fyrirheitinu, Jóa í Syni skóarans og dóttur bakarans, Pavel Rjúmín í Sumargestum, James Tyrone yngri í Dagleiðinni löngu inn í nótt, Platonof í Villihunangi, Bjarna í Í smásjá, Jóhann í Yermu, Pétur í Bílaverkstæði Badda, Pétur Gaut eldri í Pétri Gaut, Gallimard í M. Butterfly, Frank í Ríta gengur menntaveginn, skemmtistjórann og biskupinn í 13. krossferðinni, Harry Hyman í Glerbrotum, Sigurbjörn í Tröllakirkju, Lazar Wolf í Fiðlaranum á þakinu og Vershínín undirofursta í Þremur systrum. Arnar fór með titilhlutverkið í Abel Snorko býr einn, hlutverk Þeseifs konungs í Fedru, lék Þórð í Niðurkotinu í Bjarti og Bjart í Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki, Arkadí Tsjædse, stigamanninn Íraklí og fleiri hlutverk í Krítarhringnum í Kákasus, Kreon konung í Antígónu, Frank Odie í Vilja Emmu, Helge í Veislunni og Jóa hross í söngleiknum Með fullri reisn. Arnar fagnaði fjörutíu ára leikafmæli sínu hér með titilhlutverkinu í Jóni Gabríel Borkmann. Hann fór með hlutverk Jóns biskups Arasonar í Öxinni og jörðinni, lék Tupolski í Koddamanninum og ýmis hlutverk í Virkjuninni.

Meðal hlutverka Arnars utan Þjóðleikhússins má nefna Fandó í Fandó og Lis hjá Grímu, Arlekínó í Tveggja þjóni og Artúr í Tangó hjá Leikfélagi Reykjavíkur og titilhlutverkið í Galdra-Lofti í Leiksmiðjunni. Arnar lék Don Juan í Steingestinum, Makka hníf í Túskildingsóperunni, Henry Higgins í My Fair Lady og Al í Undir berum himni hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann lék titilhlutverkið í Kaj Munk í Kirkjuleikhúsinu. Arnar var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins og lék þar meðal annars hlutverk Þorleifs Kortssonar í Skollaleik og titilhlutverkið í Don Kíkóta. Auk þess lék hann einleikinn Sveinsstykki eftir Þorvald Þorsteinsson í Loftkastalanum, en verkið var sérstaklega skrifað fyrir Arnar.

Arnar hefur leikið í mörgum kvikmyndum, meðal annars burðarhlutverk í Útlaganum, Atómstöðinni, Á hjara veraldar, Maríu og Dansinum. Hann hefur einnig farið með fjölmörg hlutverk í útvarpi og sjónvarpi.

Arnar hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á Lé konungi og var tilnefndur til sömu verðlauna fyrir leik sinn í Veislunni. Hann hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín að leiklist árið 1971.

/

Sýningar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er lokuð vegna sumarleyfa til 4. ágúst.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími