Kardemommubærinn valin barnasýning ársins á Sögum-verðlaunahátíð barnanna
Sögur, verðlaunahátíð barnanna var haldin í fjórða skipti í kvöld í Hörpu. Á hátíðinni kjósa börn það menningarefni sem þau telja að hafi skarað fram úr í íslenskri barnamenningu. Kardemommubærinn var valinn leiksýning ársins og ræningjarnir leikarar ársins. Kasper og Jónatan veittu verðlaununum viðtöku. Að þeirra sögn var Jesper upptekinn við að æfa nýtt sirkusatriði og gat því ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna.
Verðlaunahátíðin hefur farið fram frá árinu 2018 þegar Svanurinn, verðlaunagripur hátíðarinnar, var afhentur í fyrsta skipti. Þegar tilnefningar til verðlaunanna hafa verið kunngjörðar fá börn tækifæri á að kjósa sitt uppáhaldsefni, sjónvarps- eða útvarpsefni, leikrit, bækur og tónlist.