Nick leikur í Geim-mér-ei sem Miðnætti sýnir í samstarfi við Þjóðleikhúsið í Kúlunni.
Nick Candy útskrifaðist úr leiklistarskólanum WAAPA í Ástralíu árið 2004. Hann hefur starfað sem leikari og sirkuslistamaður í Perth, Sydney, Japan og á Íslandi.
Nick er einn af stofnendum Sirkus Íslands, sem var stofnað árið 2007. Hann hefur leikstýrt og leikið í helstu sýningum sirkússins, ‘Stórasta Sirkus Íslands’, ‘Heima er best’, ‘Róló’ og ‘Skinnsemi.’ Nick stóð ásamt öðrum að því að koma upp fyrsta sirkustjaldi á Íslandi og hefur hann ferðast sem sirkuslistamaður með tjaldinu um Ísland í þrjú sumur.
Í Ástralíu lék Nick hjá Black Swan State Theatre, Deckchair og Shakespeare W.A. Hann lék í þrjú sumur í Shakespearesýningum sem sýndar voru að kvöldlagi utan dyra. Einnig lék hann í áströlsku kvikmyndunum ‘Teesh and Trude’ og ‘Little Sparrows’. Nick starfaði einnig sem fimleikamaður og loftfimleikamaður með ‘Natural Wings’ í Perth árin 2009-2012 þar sem hann kom fram í skemmtiatriðum, á hátíðum og loftfimleikasýningum. Nick, í samstarfi við Natural Wings, er höfundur loftfimleikasýningarinnar ‘John Gavin’ sem er byggð á atburðum úr sögu Vestur-Ástralíu. Nick lék í barnasýningunni Á eigin fótum árið 2017, en hún var tilnefnd til tveggja Grímuverðlauna. Þá var hann einnig sirkusstjóri á ‘Slá í Gegn’ hjá þjóðleikhúsinu sem hlaut Grímuverðlaunin fyrir besta sviðshreyfingu. Nick lauk meistaraprófi frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands árið 2017 með áherslu á þróun sirkuskennslu á Íslandi.