Ár nýsköpunar og íslenskra eftirsóttra verka

Árið 2022 var fullt af töfrum, spennandi áskorunum og sprúðlandi frumsköpun. Við erum stolt af þeim verkum sem við sköpuðum saman og þeim viðurkenningum sem leikhúsið hlaut á árinu. En fyrst og fremst erum við þakklát áhorfendum  sem streymdu aftur í leikhúsið og sköpuðum með okkur nýjar ógleymanlegar minningar.

Loksins hristum við þetta af okkur

Kasper Jesper og Jónatan létu ekki sitt eftir liggja í janúar þegar koma að því að létta lund barna í bólusetningum. Hvort sem það gerði útslagið eða ekki þá létti til í febrúar og sýningarhald komst smátt og smáa í eðlilegt horf.

Sú skæða gaf eftir og frá og með föstudeginum 25. febrúar var öllum samkomutakmörkunum aflétt. Grímuskylda og fjarlægðartakmarkanir heyrðu nú sögunni til.

Vinkonurnarnar fengu loksins að skara framúr

Framúrskarandi vinkona, var loksins frumsýnd. Lengi er von á einum en biðin var sannarlega þess virði. Sýningin var ein umfangsmesta uppsetning Þjóðleikhússins í áraraðir. Alls tóku 29 leikarar þátt í þessari mögnuðu stórsýningu, sem var hátt í  fjórar klukkustundir með tveimur hléum.

Bækurnar sem leikverkið er byggt á hafa hrifið lesendur um allan heim og lifnuðu við í uppsetningu hins margverðlaunaða suður-afríska leikstjóra Yaël Farber.
Unnur Ösp Stefánsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir fóru með hlutverk vinkvennanna Lenù og Lilu og fengu mikið lof fyrir.

Umskiptingur hitti í mark

Umskiptingur eftir Sigrúnu Eldjárn var frumsýnt á Litla sviðinu. Í listrænu teymi voru miklir kvenskörungar; Sara Martí leikstýrði og Ragga Gísla samdi frábæra tónlist. Sýningin var tilnefnd til Grímunnar sem barnasýning ársins og tilnefnd sem leiksýning ársins á Sögum – verðlaunahátíð barnanna.

Umskiptingur fékk stórgóðar umsagnir og leikhúsgestir, ungir sem aldnir nutu verksins vel.

Um­skipt­ing­ur er skemmti­legt verk í framúrsk­ar­andi út­færslu sem velt­ir upp mik­il­væg­um spurn­ing­um sem gott er að skoða.

MBL, S.B.H.

Loksins kom að Churchill

Í fyrsta sinn sýndi Þjóðleikhúsið leikrit eftir Caryl Churchill og það var sannarlega tími til kominn. Átta leikarar tóku þátt í sýningunni sem Una Þorleifsdóttir leikstýrrði.Föstudaginn 25. mars frumsýnir Þjóðleikhúsið Ást og upplýsingar eftir breska leikskáldið Caryl Churchill.

Churchill hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, sem gjarnan fjalla um áleitin viðfangsefni úr samtímanum, femínísk málefni, kynjapólitík, vald og misbeitingu þess. Verk hennar hafa verið sett upp í helstu leikhúsum Bretlands og víða um heim.

Sjö ævintýri Tyrfings trylltu landann

Sjö ævintýri um skömm var eitt þeirra nýju íslensku verka sem Þjóðleikhúsið veðjaði á í ár. Tyrfingur Tyrfingsson hefur verið eitt athyglisverðasta leikskáld landsins um langa hríð og óhætt er að segja að hæfileikar hans hafi sprungið út þegar Sjö ævintýri um skömm var sviðsett í leikstjórn Stefáns Jónssonar, sem er alls ekki ókunnugur verkum Tyrfings.

Sýningin var tilnefnd til tólf Grímuverðlauna og hlaut verðlaunin fyrir leikrit ársins, leikstjórn, leikara í aðalhlutverki, leikmynd, búninga og lýsingu. Þetta nýja verk eftir Tyrfing Tyrfingsson kom áhorfendum skemmtilega á óvart, með sínum galgopalega húmor, frumleika og hlýju.

Rafrænar leikaraprufur

Annað árið í röð bauð Þjóðleikhúsið menntuðum leikurum að senda inn umsóknir og upptökur rafrænt. Þessi háttur var einnig hafður á árinu áður og bárust ríflega eitt hundrað umsóknir og í kjölfarið voru nokkrir leikarar ráðnir til verkefna við húsið.

Það má lengi telja upp margt slæmt við faraldurinn en óhætt er að fullyrða að hann neyddi okkur flest til þess að finna nýjar lausnir á samskiptum og samvinnu og tæknilega fleytti okkur öllum fram.

Áfram heillar Vertu úlfur og vinnur til fleiri verðlauna. Sýnd í 100. sinn.

Þær Emiliana Torrini og Markéta Irglová hlutu Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir Vertu úlfur – titillag. Lagið, sem sat um tíma í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2, er einstaklega fallegt og áhrifaríkt og sómir sér vel í því mannbætandi listaverki sem sýningin Vertu úlfur sannarlega er.

Vertu úlfur var sýnd í 100. sinn á Stóra sviði Þjóðleikhússins í október. Við það tækifæri veittu aðstandendur sýningarinnar Geðhjálp allan ágóða af sölu vínylplötu sem var gefin út í tengslum við sýninguna. Einungis voru framleidd 39 eintök af plötunni en hún var seld í framhaldi vitundarvakningar Geðhjálpar og Píeta samtakanna sem bar heitið 39.

Við frumsýndum Prinsinn á Rifi á Snæfelssnesi

Þjóðleikhúsið í samstarfi við Frystiklefann á Rifi, frumsýndi nýtt íslenskt leikrit, Prinsinn, eftir Maríu Reyndal og Kára Viðarsson, byggt á sönnum atburðum. Verkið er byggt á reynslu Kára sem horfðist í augu við það sautján ára gamall að eiga von á barni.

Frumsýnt var á Rifi og í framhaldinu var sýnignin sýnd víða um land. Verkið verður aftur tekið til sýninga á Litla sviðinu frá og með febrúar.

Ekki ein, heldur tvær athyglisverðustu leiksýningar ársins

Þjóðleikhúsið hefur staðið fyrir vali á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins allt frá leikárinu 1993-1994. Þar sem valið féll niður tvö leikár í röð vegna Covid-faraldursins var ákveðið að þessu sinni að velja tvær leiksýningar, eina barnasýningu og aðra ætlaða fullorðnum. Sýningarnar voru báðar sýndar í Þjóðleikhúsinu í júní.

Sýningar sem hrepptu hnossið voru Pétur Pan eftir J. M. Barry í leikstjórn Gretu Clough frá Leikflokki Húnaþings vestra og Fyrsti kossinn eftir Brynju Ýr Júlíusdóttur og Guðlaug Ómar Guðmundsson í leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar frá Leikfélagi Keflavíkur.

Við lásum fyrir Úkraínu

Þjóðleikhúsið og bókaforlagið Bjartur efndu til viðburðar til styrktar fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu í maí. Leikarar Þjóðleikhússins lásu úr úkraínsku skáldsögunni Dauðinn og mörgæsin sem var endurútgefin af Bjarti og þýðandinn Áslaug Agnarsdóttir sagði frá úkraínska höfundinum Andrej Kúrkov.

Samstarf við Stefan Żeromski leikhúsið í Kielce

Þjóðleikhúsið hóf formlega samstarf við Stefan Żeromski leikhúsið í Kielce í Póllandi en það er meðal elstu leikhúsa Póllands og nýtur mikillar virðingar víða um heim. Samstarf leikhúsanna tveggja  mun fela í sér gestasýningar í báðum leikhúsum, gagnkvæmar heimsóknir og samstarf á sviði þekkingarmiðlunar og síðast en ekki síst þróun nýs leikverks sem skrifað verður um stöðu Pólverja sem búsettir eru á Íslandi.

Starfsfólk pólska leikhússins heimsótti okkur í maí og var það lærdómsríkt fyrir báða aðila að bera saman bækur. Við hlökkum mikið til áframhaldandi samstarfs.

Útskriftarhópur LHÍ sýndi Hamlet

Útskriftarhópur leikaradeildar LHÍ sýndi Hamlet í Kassanum í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Það er alltaf hátíðleg stund þegar nýir leikarar mæta áhorfendum í útskriftarverkefnum sínum.  Þessi hópur réðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og bauð upp á kjarkmikla framsetningu á  Hamlet eftir William Shakespeare.  Leikgerðin var löguð að hópnum, þýðingin, sem er eftir Þórarin Eldjárn, hafði aldrei áður ratað á fjalir leikhússanna.
Þjóðleikhúsið er alltaf stolt af því að bjóða leikhúsgestum að sjá framtíðarstjörnur leikhússins

Þjóðleikhúsið hóf samstarf við Complicité, einn fremsta leikhóp heims

Þjóðleikhúsið hefur lagt talsverða vinnu í að efla erlent samstarf á árinu og hóf meðal annars samstarf við hinn heimsþekkta og virta leikhóp Complicité, sem Simon McBurney, einn fremsti leikstjóri heims, leiðir. Unnið er að þróun sýningarinnar Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu sem byggir á skáldsögu nóbelsverðlaunahafans Olgu Tokarczuk.

Sýningin verður frumsýnd í London á næsta ári og sýnd í Þjóðleikhúsinu upp úr því.
Þjóðleikhúsið er samstarfsaðili við uppsetningu verksins, auk Odéon-leikhússins í París, en stefnt er að því að fara með sýninguna í leikferð um heiminn.

Þjóðleikhúsið og Sjö ævintýri um skömm með flestar Grímutilnefningar

Það var mikið um dýrðir þegar glæsileg uppskeruhátíð sviðslistafólks. Gríman, var haldin í Þjóðleikhúsinu 14. júní síðastliðinn.  Verk Tyrfings Tyrfingssonar, Sjö ævintýri um skömm, hlaut alls 6 grímuverðlaun.
Höfundurinn fékk verðlaun fyrir leikrit ársins, Stefán Jónsson fyrir leikstjórn, Börkur Jónsson fyrir leikmynd, Halldór Örn Óskarsson fyrir lýsingu, Þórunn Elísabet Sveinsdóttir fyrir búninga og Hilmir Snær Guðnason fékk grímuverðlaun sem leikari ársins í aðalhlutverki. Rómeó og Júlía fékk tvenn grímuverðlaun, annars vegar fengu þau Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebecca Hidalgo fyrir dans- og sviðshreyfingar og hins vegar þau Salka Valsdóttir og Kristinn Gauti Einarsson fyrir hljóðmynd.

Taylor Mac kom sá og sigraði með slatta af glimmeri

Það var mikið um dýrðir þegar súperstjarnan Taylor Mac hélt magnaða tónleika í Þjóðleikhúsinu, en viðburðurinn markaði einnig upphaf Listahátíðar í Reykjavík.

Á undanförnum tveimur áratugum hefur Taylor Mac skapað sýningar sem í senn ögra og fagna fjölbreytileika mannlífsins, og hafa hlotið alþjóðleg verðlaun.
Taylor Mac nýttti drag, tónlist og húmor og hélt uppi  krafmikilli samfélagslegri gagnrýni. Svið og salur runnu saman í sjónræna gleðisprengju og eitt allsherjar partí með geggjaðri tónlist sem áhorfendur kunnu vel að meta. Íslenskt sviðslistafólk kom einnig fram við þetta tækifæri.

Kabarett, uppistand, drag, spuni og skemmtilegheit í Kjallaranum.

Leikhúskjallarinn hélt áfram að vera suðupottur fyrir stórskemmtilegar sýningar og uppákomur. Kjallarakabarettinn festi sig í sessi og stóð við sitt loforð: Heitt og sveitt á föstudögum. Það var meira og minna uppselt á sýningar Improv hópsins, Jakob Birgisson sló í gegn með nýju uppistandi. Sviðslistahópurinn Óður setti upp Ástardrykkinn, einstaka gaman óperu um ást og ölvun.

Auk þess var mikið um aðra líflega viðburði og tónleika. Leikhúskjallarinn er orðinn algerlega ómissandi liður í skemmtanalífinu, sannkölluð klassabúlla.

Sýndarveruleiki á Loftinu

Margar áhugaverðar sýningar fóru fram í tilraunarými Þjóðleikhússins, Loftinu. Þar á meðal var verkið Hliðstætt fólk eftir leikhópinn Huldufugl sem var frumsýnt í apríl, en það verk fór fram innan sýndarveruleika. Fimm áhorfendur í einu stigu inn í gagnvirkt sýndarveruleikhús og gátu stjórnað útkomu sýningarinnar í gegnum samskipti sín við leikara. Leikritið fjallaði um traust, upplýsingaóreiðu og samskipti.

Þetta er í fyrsta sinn sem sýndarveruleiki er notaður við leikverk innan veggja Þjóðleikhússins, og það verður athyglisvert að fylgjast með frekari nýsköpun á komandi árum.

Íbúar bæjarsins sem allir elska, kvöddu Stóra sviðið

Það kom að því. Eftir ríflega eitt hundrað sýningar kvöddu íbúar Kardemommubæjar sviðið í bili. Nú hefur ný kynslóð búið til minningar frá „sinni” uppfærslu á leikriti Egners. En allt tekur enda og nú er komið að leiðarlokum að sinni en ríflega 40.000 gestir komu að sjá sýninguna.

Þetta var sjötta uppsetning Þjóðleikhússins á Kardemommubænum, en sýningar Torbjörns Egners hafa notið ótrúlegra vinsælda frá árinu 1960 þegar Kardemommubærinn var settur upp í fyrsta sinn.

Egner þótti afar vænt um þær góðu viðtökur sem verk hans hlutu hér á landi, og hann tengdist Þjóðleikhúsinu og starfsfólki þess nánum böndum. Þegar frumuppfærslan var tekin til sýninga að nýju árið 1965 að Egner viðstöddum tilkynnti hann að hann gæfi Þjóðleikhúsinu höfundarréttartekjur af Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi í hundrað ár.

Sprenghlægilegur gamanleikur að norðan sýndur í Kjallaranum

Eftir að hafa gengið fyrir fullu húsi tvö leikár á Akureyri mættti Fullorðin loksins í Þjóðleikhúsið. Verkið sem er sprenghlægilegur gamanleikur um það skelfilega hlutskipti okkar allra að verða fullorðin og misheppnaðar tilraunir okkar til að sannfæra aðra um að við séum það. Fullorðið fólk á að vita hvað það er að gera! Staðreyndin er hinsvegar sú að enginn veit hvað hann er að gera og allir eru að þykjast. Það vekur upp stórar spurningar um það hvenær og hvort maður verði nokkurn tímann fullorðinn?

Þjóðleikhúsblaðinu var dreift í takti við nýja græna stefnu

Þjóðleikhúsið leggur áherslu á umhverfisvernd og loftslagsmál í starfsemi sinni og hefur markað sér græna stefnu sem felst í því að minnka kolefnisspor leikhússins. Af þeim sökum var Þjóðleikhúsblaðið prentað í mun minna upplagi en áður en þess gætt á sama tíma að allir gætu fengið fengið blaðið á því formi sem þeir kusu. Boðið var upp á rafrænt niðurhal blaðsins og mæltist nýtt fyrirkomulag  almennt vel fyrir.

Söngleikurinn Sem á himni frumsýndur á Stóra sviðinu

Í september frumsýndi Þjóðleikhúsið söngleikinn Sem á himni á Stóra sviðinu. Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrði og hafði með sér sama listræna teymið og skapaði stórsýninguna Mamma Mia.
Með aðalhlutverk fóru Salka Sól og Elmar Gilbertsson, sem hefur um árabil verið eftirsóttur í óperuhúsum víða um heim en steig á þessu ári í fyrsta sinn á svið í Þjóðleikhúsinu. Auk Elmars og Sölku Sólar voru þau  Vala Guðnadóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Katrín Halldóra og Hinrik Ólafs og fleiri og fleiri hluti af hópi 25 leikara í sýningunni.

Miklar umræður urðu í kjölfar sýningarinnar um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í sviðslistum og sett var fram gagnrýni á að ófatlaður leikari færi með hlutverk fatlaðs manns.

Góðan daginn, faggi fór vítt og breytt um landið

Leiksýningin Góðan daginn Faggi lagði land undir fót síðastliðið haust en þá var boðið upp á sýningar fyrir elstu bekki grunnskóla á landsbyggðinni auk þess sem sýndar voru almennar sýningar á Akureyri, Egilsstöðum, Neskaupstað og Patreksfirði. Í kjölfarið voru settar upp sýningar fyrir elstu bekki grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefnið er í samstarfi Leikhópsins Stertabendu, List fyrir alla, Samtakanna ‘78 og Þjóðleikhússins.

Húsfyllir á málþingi um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í sviðslistum

Vel var mætt á málþing um samfélagsleg áhrif birtingarmynda í sviðslistum sem haldið var á Stóra sviði Þjóðleikhússins í október og umræður voru afar hugvekjandi og upplýsandi. Alls voru fluttar 10 framsögur og í kjölfarið var boðið upp á pallborðsumræður þar sem dregnir voru fram ýmsir fletir sem hjálpa til við að varpa ljósi á mikilvægi inngildingar og stöðu fatlaðra í sviðslistum.

Framsögufólk var flest úr röðum fatlaðra og það var áhrifamikið að heyra þau deila sinni reynslu og sinni sýn á málefnið. Umræðunni er síst lokið en það er von allra sem að málþinginu stóðu að það hafi skapað jákvæðan grundvöll til frekari samræðna og umbóta til framtíðar í sviðslistum og samfélaginu öllu.

Leiklestur á Ímyndunarveikinni og málþing í tilefni af 400 ára afmæli Molières

400 ára afmælis hins mikla franska meistara gamanleikjanna Molières (1622-1673) var minnst víða, og Þjóðleikhúsið mun stóð að tveimur viðburðum í tilefni af afmælinu í haust, í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ og Sendiráð Frakklands á Íslandi.

Leiklestur á Ímyndunarveikinni í þýðingu Sveins Einarssonar og leikstjórn Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur, í Kassanum miðvikudaginn 26. október kl. 17. Leikarar voru Sigurður Sigurjónsson (Argan), Hildur Vala Baldursdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Pálmi Gestsson, Almar Blær Sigurjónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Guðjón Davíð Karlsson, Sigurbjartur Sturla Atlason, Oddur Júlíusson og Ebba Katrín Finnsdóttir.

Nýtt og endurbætt gestarými vígt í Kassanum

Ráðist var í gagngerar og tímabærar umbætur á forsal Kassans, og var þá haft að leiðarljósi að minnast sögu hússins sem íþróttahúss. Húsið við Lindargötu 7 sem hýsir minni svið Þjóðleikhússins, Kassann og Litla sviðið, var upphaflega reist af Jóni Þorsteinssyni íþróttakennara árið 1934 og hefur verið nefnt eftir honum hús Jóns Þorsteinssonar.

Hér starfrækti Jón íþróttahús á árunum 1935 til 1976. Litla svið Þjóðleikhússins var opnað árið 1986 og nýtt leiksvið, Kassinn, árið 2006. Í þessu húsi hafa fjölmargar áhrifamiklar leiksýningar verið sýndar, meðal annars ný íslensk verk, erlend samtímaverk og barnaleikrit.

Nokkur augnablik um nótt frumsýnt í Kassanum

Þjóðleikhúsið frumsýndi enn eitt nýja íslenska leikritið, Nokkur augnablik um nótt, í október. Verkið, sem er eftir Adolf Smára Unnarsson, beinir sjónum að samtalinu á milli kynslóða, þjóðfélagshópa, fólks með ólíkar skoðanir og lífsgildi og þeirri óbilgirni sem oft einkennir það samtal.

Nokkrum augnablikum um  nótt er lýst sem grátbroslegu og spennandi leikriti um fagfjárfesta og fótboltamenn, stuðningsfulltrúa, stjórnmálakonur og fleira gott fólk. Leikstjórn var í höndum Ólafs Egils Egilssonar. Leikarar eru Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson.

Verkið verður tekið aftur til sýninga í janúar.

Starfsfólk Þjóðleikhússins gróðursetti um 4000 plöntur í Heiðmörk

Í október var glatt á hjalla hjá starfsfólki Þjóðleikhússins sem gróðursetti rúmlega 4000 tré í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Þetta átaksverkefni starfsfólks er hluti af grænum skrefum leikhússins og viðleitni til að kolefnisjafna starfsemi leikhússins.

Var það samdóma álit sérfræðinga Skógræktarinnar að vaskari hópur hefði vart sést við gróðursetningu og margir sýndu takta á heimsmælikvarða.

Eyja brýtur blað í sögu Þjóðleikhússins

Í nóvember frumsýndi Þjóðleikhúsið í samstarfi við O.N. sviðslistahóp, sýninguna Eyja. O.N samanstendur af heyrnarlausu og heyrandi listafólki, setur upp tvítyngdar sýningar, jafn aðgengilegar fyrir þá sem hafa íslenska tungu og íslenskt táknmál að móðurmáli. Eyja var fyrsta leiksýning sinnar tegundar sem sýnd er í Þjóðleikhúsinu og braut þannig blað í sögu leikhússins.

Eyja er hrifamikið verk um tengsl og tengslaleysi, sorgarferli, samskipti og löngunina eftir því að öðlast hlutverk í lífi sinna nánustu.

Fullveldiskaffi með eldra starfsfólki haldið í fyrsta sinn

Svokallað Fullveldiskaffi var haldið í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn þann 1. desember en þá var eldri starfsmönnum Þjóðleikhússins boðið í heimsókn. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá núverandi starfsmönnum og gömlum vinnufélögum sem mörg hver hafa ekki sést um árabil.

Ragnheiður Steindórsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Eggert Þorleifsson, Edda Björgvinsdóttir og Kristín Hauksdóttir sýningarstjóri, fögnuðu öll sjötugsafmæli á árinu. Einnig var þeim Trygve Jonas Eliassen, fyrrum propsara og Ingveldi Breiðfjörð, sem starfaði um árabil á saumastofu, þökkuð góð störf. Þau fengu meðal annars sérstaka Þjóðleikhúspúða að gjöf en efnið er það sama og prýðir forsal og sal Þjóðleikhússins og því getur þetta sómafólk haft lítinn hluta af anda Þjóðleikhússins með sér heima.

Pussy Riot hristu upp í leikhúsgestum með mögnuðum viðburði

Pussy Riot héldu magnaðan viðburð á Stóra sviði Þjóðleikhúsisin í nóvember. Þetta var hressilegri vatnsgusa í andlitið á áhorfendum sem margir hverjir gengu út úr leikhúsinu með nýja eða að minnsta kosti örlítið breytta sýn. Færri komust að en vildu, en nú hefur tekist að tryggja aðra sýningu í janúar og miðasala er hafin.

Sýningin, sem er sambland af tónleikum, gjörningalist og pólitískum viðburði, snart gesti Þjóðleikhússins djúpt og hreyfði við þeim á einstaklega kraftmikinn hátt. Nú gefst þeim sem misstu af í nóvember tækifæri til þess að sjá herlegheitin.

Rafænar leikprufur í tengslum við Draumaþjófinn

Þjóðleikhúsið stóð fyrir opnum, rafrænum leikprufum fyrir börn, á aldrinum 9-13 ára í nóvember. Leitað var að tólf börnum til að taka þátt í fjölskyldusöngleiknum, Draumaþjófurinn. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem leikhúsið stendur fyrir áheyrnarprufum fyrir börn með þessu hætti.

Draumaþjófurinn er glænýtt íslenskt leikverk byggt á bók Gunnars Helgasonar í leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur. Stefán Jónsson leikstýrir en með aðalhlutverk fara Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson en alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni, auk barnanna sem nú er leitað að og hljómsveitar. Þorvaldur Bjarni semur nýja tónlist og danshöfundur er Lee Proud.

Heimsfrumsýning á Ellen B. fær frábærar viðtökur

Það var einstaklega hátíðlegt andrúmsloft í Þjóðleikhúsinu þegar dagurinn rann loksins upp og komið var að heimsfrumsýningu á fyrsta verkinu í þríleik Mayenburgs. Prúðbúna leikhúsgesti dreif að og eftirvæntingin var áþreifanleg. Óhætt er að segja að sýningin afi hitt í mark og áhorfendur fögnuðu leikurum og listrænum stjórnendum ákaft og innilega í lok sýningarinnar.

Fjölmargir leikhúsgestir tjáðu sig lofsamlega um Ellen B. sem sannarlega gefur fögur fyrirheit um framhald þríleiksins.

Jólakveðja Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Það er kannski við hæfi að ljúka þessu ári á sama hátt og við lukum árinu 2020, með fallegri kveðju okkar og Sinfó. Við hlökkum mikið til að fá að hitta ykkur í leikhúsinu.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími