Árið sem áhorfendur nýttu hvert tækifæri til þess að koma í Þjóðleikhúsið
Árið 2021 var magnað og margbreytilegt leikhúsár í Þjóðleikhúsinu. Við erum áhorfendum okkar óendanlega þakklát fyrir áhugann og stolt af ógleymanlegum minningum sem við sköpuðum saman, þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður.
Okkur tókst að koma á svið fjölda sýninga sem við erum stolt af og áhorfendur streymdu á öllum stundum sem það var heimilt.
Vonandi færir nýja árið okkur betri aðstæður til að hittast í leikhúsinu, upplifa og hrífast saman.
Vertu úlfur kom, sá og sigraði
Vertu úlfur eftir Unni Ösp Stefándóttur, byggt á bók Héðins Unnsteinssonar, hreif þjóðina og snerti áhorfendur djúpt. Þegar hafa verið sýndar yfir 80 sýningar á verkinu og ekkert lát er á áhuganum.
Efnt var til samtals um geðheilbrigði á Stóra sviði Þjóðleikhússins 20. september í samstarfi við Geðhjálp, Hlutverkasetur, Geðlæknafélag Íslands og heilbrigðisráðuneytið. Þar ræddu starfsfólk úr geðheilbrigðiskerfinu og notendur þess og aðstandendur þeirra, ásamt listafólki frá Þjóðleikhúsinu og Hlutverkasetri, um geðheilbrigði í víðu samhengi.
Kafbátur valin barnasýning ársins
Kafbátur, nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Eiríksson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur, leiddi börn og fullorðna í ævintýrlegt ferðalag um undirdjúpin. Sýningin var jafnframt valin barnasýning ársins á Grímunni.
Í tengslum við sýningu á Kafbáti fór Þjóðleikhúsið í samstarf við Skógræktina og Landgræðsluna. Öll börn sem komu á sýninguna á Kafbáti fengu birkifræ að gjöf.
Nashyrningarnir gerðu allt vitlaust
Nashyrningarnir eftir Ionesco í leikstjórn Benedikts Erlingssonar hristu rækilega upp í áhorfendum svo “álfahöllin” nötraði. Gagnrýnendur voru á einu máli, sýningin þótti stórgóð og sviðsetning Benedikts Erlingssonar hitti í mark. Verkið stendur enda enn fyrir sínu og á brýnt erindi.
Hvað gekk eiginlega á?
Það gekk eitt og annað á við sýningar á Nashyrningunum. Facebook lokaði tímabundið auglýsingareikningi Þjóðleikhússins á þeim forsendum að verið væri að höndla með dýr í útrýmingarhættu.
Sumum leikhúsgestum brá í brún þegar þeir komu í leikhúsið og héldu að menningarverðmæti hefðu skemmst. En svo var auðvitað ekki, eins og m.a. var útskýrt í frétt á mbl.is, heldur var um nokkurs konar framlengingu á sýningunni að ræða; látið var líta út fyrir að nashyrningar hefðu leikið lausum hala í gestarýminu. Allt var þetta hluti af leikhústöfrunum og Facebook opnaði loks faðm sinn að nýju!
Þjóðleikhúsið og úlfurinn rökuðu inn Grímuverðlaunum
Vertu úlfur var ótvíræður sigurvegari Grímunnar á árinu; fékk Grímuverðlaun sem sýning ársins, fyrir leikrit ársins, leikstjórn ársins, sem var í höndum Unnar Aspar, leikara ársins í aðalhlutverki, Björn Thors, leikmynd sem Elín Hansdóttir hannaði, lýsingu sem var í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar og Halldórs Arnar Óskarssonar og fyrir hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar og Valgeirs Sigurðssonar.
Auk þess var Kafbátur valin barnasýning ársins og Kjartan Darri Kristjánsson hlaut Grímuna fyrir leik í aukahlutverki í sýningunni. Þá hlaut María Th. Ólafsdóttir Grímuverðlaun fyrir búninga í Kardemommubænum
Rómeó og Júlía vöktu lukku
Rómeó og Júlía laðaði þúsundir ungmenna og tryggra leikhúsgesta í leikhúsið í nýrri, kraftmikilli uppsetningu Þorleifs Arnar. Sýningin var stútfull af stórkostllegri tónlist sem einnig naut vinsælda utan leikhússins. Sýningin var mikið sjónarspil og veisla fyrir augu og eyru. Ebba Katrín Finnsdóttir og Sigurbjartur Sturla Atlason, einnig þekktur sem Sturla Atlas, fóru með hlutverk elskendanna.
Leikhúshátíð ungs fólks var sem ferskur andblær inn í leikhúslífið
Þjóðleikhúsið stóð fyrir einstakri leikhúshátíð fyrir ungt fólk í tengslum við sýningar á Rómeó og Júlíu. Ungu fólki á menntaskólaaldri var boðið á fyrstu sýningar verksins. Ekki var að sökum að spyrja, ungmennin flykktust í leikhúsið og hrifust með og nutu þess að upplifa heillandi og hættulegan heim verksins sem var sjónræn veisla, uppfull af dásamlegri tónlist.
Klassíkin okkar – leikhúsveisla heillaði landsmenn
Klassíkin okkar var leikhúsveisla sem heillaði áhorfendur í Eldborg og heima í stofu í útsendingu RÚV. Leikhústónlist þjóðarinnar ómaði í flutningi Sinfóniuhljómsveitar Íslands, söngvara og leikara Þjóðleikhússins.
Fjöldi listamanna Þjóðleikhússins tók þátt í þessu skemmtilega verkefni og dagskráin hlaut frábærar viðtökur.
Magnað lífshlaup Ástu hreif áhorfendur og troðfyllti leikhúsið
Ásta sló rækilega í gegn í leikgerð og leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Sýningin gengur enn fyrir troðfullu húsi. Sýning Ólafs Egils hitti áhorfendur í hjartastað og Birgitta Birgisdóttir hreif leikhúsgesti með túlkun sinni á listakonunni sem var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs þessarar hæfileikaríku en breysku konu og höfundarverks hennar óljós.
Í tengslum við sýninguna var bók Ástu Sigurðardóttur Sögur og ljóð endurútgefin á vegum Forlagsins.
Gríðarlega vel sótt málþing um Ástu var haldið í Kassanum.
Kardemommubærinn er ennþá vinsælasti bærinn á landinu
Kardemommubærinn hélt áfram að heilla leikhúsgesti, unga sem aldna, í einstaklega glæsilegri og vandaðri sviðsetningu Ágústu Skúladóttur. Sjötugustu sýningu var fagnað á dögunum en ekkert lát er á aðsókn.
Jól í eitt hundrað ár
Jólaboðið er dásamlega falleg og hugljúf sýning sem Gísli Örn leikstýrði en handritið samdi hann ásamt Melkorku Teklu. Áhorfendur gægjast inn á heimili fjölskyldu á aðfangadagskvöld á 100 ára tímabili. Allar sýningar seldust upp og mun Jólaboðið snúa aftur á fjalirnar á aðventunni 2022.
Óhemju vinsældir Láru og Ljónsa
Lára og Ljónsi – jólasaga er nýtt leikrit sem Guðjón Davíð Karlsson leikstýrði og skrifaði, byggt á hugmynd Birgittu Haukdal og geysivinsælum sögupersónum hennar. Sýningin sló í gegn og í nóvember og desember seldist upp á yfir 50 sýningar.
Framúrskarandi vinkona á leiðinni
Starfsfólk Þjóðleikhússins hefur unnið af miklum krafti að undirbúningi stórsýningarinnar Framúrskarandi vinkonu í leikstjórn hinnar margverðlaunuðu Yael Farber. Hér er á ferð sannkölluð leikhúsveisla sem til stóð að frumsýna um jólin en vegna heimsfaraldurs var frumsýningu frestað. Vonast er til að áhorfendur fái að njóta veislunnar áður en langt um líður á nýju ári.
Heiðursverðlaun Grímunnar
Þórhallur Sigurðsson var útnefndur heiðursverðlaunahafi Grímunnar í ár en hann hefur starfað í Þjóðleikhúsinu í ríflega hálfa öld. Þórhallur brautskráðist úr leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1970 en hafði þá þegar leikið í fimm sýningum leikhússins, meðal annars stórt hlutverk í Fiðlaranum á þakinu og titilhlutverk í Malcolm litla. Þórhallur hefur starfað við Þjóðleikhúsið sem leikari og leikstjóri í yfir 50 ár og er sá starfsmaður sem hefur lengstan starfsaldur allra við húsið.
Nýju hádegisleikhúsi hleypt af stokkunum
Nýju Hádegisleikhúsi var hleypt af stokkunum og voru tvö ný íslensk verk frumsýnd, Út að borða með Ester í leikstjórn Grétu Kristínar og Rauða kápan í leikstjórn Hilmars Guðjónssonar.
Leikhúsgestir kunnu vel að meta þessa nýjung og streymdu í Kjallarann og nutu ljúffengra veitinga og leiksýninga.
Sjitt,… ætlar þetta aldrei að hafast?
Örn Árnason er þolinmóður maður. Eftir ítrakaðar tilraunir til þess að halda upp á 60 ára afmælið sitt, hafðist það loksins nær tveimur árum eftir tilsettan tíma að blása til veislu. Það gerir Örn nú undir heitinu Sjitt ég er 60+. Og þvílík veisla hjá Erni, sem sýndi allar sínar bestu hliðar í einlægri og skemmtilegri sýningu þar sem alltaf var stutt í hláturinn.
Góðan daginn, aftur og aftur
Sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur Bjarna Snæbjörnssonar, Góðan daginn faggi, þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag, sló rækilega í gegn.
Kanarí skemmti í Kjallaranum
Kanaríhópurinn samanstendur af grínistum, leikurum, sviðs- og handritshöfundum sem hafa gert garðinn frægan með samnefndum sketsaþáttum á RÚV. Samnefnd sýning þeirra í Kjallaranum var einstaklega frumleg og skemmtileg.
Tilraunir og tækifæri á Loftinu
Á Loftinu fengu nýsköpun og tilraunir að eiga sviðið.
Konserta frumsýndi Sýninguna okkar, djarft, nýtt sviðsverk með aðferða- og fagurfræði snjallsímans að leiðarljósi. Leikhópurinn Konserta var stofnaður árið 2019 og notast við handahófs- og óreiðukenndar vinnuaðferðir við sköpun sviðsverka sem leka eins og ísmolar niður á bak áhorfenda. Eina regla Konserta er að það er allt í lagi að vera smá slappur.
Verkið Heimsending sprettur úr hugarheimi unga fólksins í leiksmiðjunni Trúnó og er samsuða hugmynda þeirra, í formi klukkustundar langrar sýningar. Verkið vekur upp spurningar um hver við erum á yfirborðinu, hvað þarf til að sleppa takinu og leyfa því sem kraumar undir að brjótast út.
Leikhópurinn Elefant, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, þróar nú nýja útgáfu af Íslandsklukku Halldórs Laxness. Verkið var leiklesið í leikstjórn Þorsteins Bachmann á Akureyri og Egilstöðum.
Vloggið fór út um allt land
Vloggið, eftir Matthías Tryggva Haraldsson, var frumsýnt í Hofi á Akureyri en það var skrifað sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og var leikið víða um land fyrir nemendur elstu bekkja grunnskóla. Verkið var sýnt á hátt í 20 stöðum á landsbyggðinni og að lokum á Stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem elstu bekkingar grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu fylltu salinn dag eftir dag.
Alls komu um 5000 ungmenni að sjá sýninguna á 36 sýningum.
Leikstjóri er Björn Ingi Hilmarsson.
Fræðsla og fjör á öllum sviðum. Árleg heimsókn leikskólabarna
Þjóðleikhúsið leggur áherslu á vandað og fjölbreytt úrval leiksýninga fyrir börn og ungt fólk. Börnum í elstu deildum leikskóla er boðið að kynnast töfraheimi leikhússins á ári hverju.
Að þessu sinni var þeim boðið að sjá sýninguna Ég get, og óhætt er að segja að hún hafi vakið mikla hrifningu. Alls voru það börn frá um 120 leikskólum sem heimsóttu Þjóðleikhúsið á árinu.