Hjördís Anna er listrænn dramatúrg fyrir íslenskt táknmál og leikhópinn í sýningunni Eyju, sem sýnd er í samstarfi O.N. sviðslistahóps og Þjóðleikhússins.
Hjördís Anna er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún er döff og íslenska táknmálið er móðurmál hennar, en hún hefur líka góðan grunn í íslensku, auk þess sem hún getur talað nokkur önnur táknmál, m.a. sænskt táknmál, ASL og getur notað alþjóðleg tákn. Hún hefur verið virk í félagsstörfum og setið í stjórn í Félagi heyrnarlausra, ÖBÍ og WFD, World Federation of the Deaf.
Hjördís Anna útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005 sem grunnskólakennari. Frá útskrift hefur hún unnið á táknmálssviði við Hlíðaskóla.
Heimur listarinnar hefur ávallt heillað Hjördísi Önnu, og hefur grunnurinn að þeim áhuga vafalítið verið lagður með þátttöku í skólaleikritum í Heyrnleysingjaskólanum og í táknmálskór hjá Kirkju heyrnarlausra. Hún hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum sem tengjast tónlist og leiklist. Þar má nefna jólatónleika Táknmálskórs og stjórn barna-táknmálskórsins Litlu sprotanna á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún hefur tekið þátt í tveimur leiksýningum á vegum Draumasmiðjunnar, Hvar er Klárus? árið 2008 og Borð fyrir 2 árið 2010. Hún hefur flutt ljóð, verið með uppistand og unnið þýðingavinnu í samvinnu við aðra listamenn.
Hjördís Anna hefur hefur unnið nokkur þýðingarverkefni þar sem þýtt er úr íslensku yfir á íslenskt táknmál. Hún var í ráðgefandi hlutverki varðandi þýðingarferli og aðstoð við að stílfæra íslenska táknmálið á sýningunni Óþelló, Desdemóna og Jagó í Borgarleikhúsinu árið 2008. Einnig hefur hún aðstoðað marga Döff listamenn við þýðingar og stílfærslu íslenska táknmálsins.