Leikhúsnám fyrir ungt fólk í Þjóðleikhúsinu
Þjóðleikhúsið hefur sett af á laggirnar nýjan menntunarmöguleika fyrir ungt fólk með brennandi áhuga á leikhúsinu, hvort heldur sem það er á leiklist, hönnun, tækni, skrifum eða öðrum störfum leikhússins.
Leikhússkóli Þjóðleikhússins er 3ja ára einstaklingsmiðað leikhúsnám fyrir ungt fólk á aldrinum 16-20 ára. Í náminu fá nemendur að kynnast ólíkum stöfum leikhússins og leikhúsinu sjálfu, rækta og þroska sýn sína og áhuga og fá tækifæri til að skapa leiksýningu á eigin forsendum á fjölum Þjóðleikhússins undir lok námsins. Í náminu er lögð áhersla á sjálfstæða hugsun, sköpun og fagmennsku.
Sækja um

Námið
Leikhússkóli Þjóðleikhússins er fagleg leikhúsmenntun þar sem nemendur fá að kynnast ólíkum störfum innan leikhússins og geta síðan valið sér eigin áherslur út frá áhugasviði sínu eftir því sem líður á námið. Þar með geta nemendur kynnst sjálfum sér sem leikhúslistamanni í gegnum námið, öðlast víðtæka vitneskju um leikhúsið og styrkt sýn sína og áhuga. Námið er einstaklingsmiðað þar sem nemendur setja sjálfum sér markmið á hverri önn og meta eigin vinnu með stuðningi og leiðsögn kennara. Samvinna er stór þáttur í náminu þar sem nemendur mynda leikhóp í gegnum námið sem að lokum setur upp samsköpunarverkefni sem sýnt verður á fjölum Þjóðleikhússins af sömu fagmennsku og metnaði og lagt er í aðrar uppfærslur hússins.

Fyrirkomulag námsins
Námið er byggist upp af þremur árum þar sem hvert ár er undanfari þess sem á eftir kemur.
Haustönn hefst um miðjan september og líkur í lok nóvember, 12 vikur. Kennt er einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og mega nemendur gera ráð fyrir um klukkustund í heimavinnu á viku.
Á vorönn verður gefið rými fyrir nemendur til að taka þátt í leikfélögum sinna skóla og því tvö helgarnámskeið í janúar og pása gerð í febrúar á kennslu. Kennsla hefst vikulega að nýju í byrjun mars og er kennt tvær klukkustundir í viku í mars og út apríl, ásamt heimavinnu. Vinnusmiðja er svo yfir eina helgi í maí.
Auk kennslustunda munu nemendur fá tækifæri til þess að fara inná æfingar á uppsetningum leikhússins og ræða við leikara og listræna stjórnendur um þeirra ferli, fara á sýningar og taka þátt í umræðum um þá starfsemi leikhússins sem tengist þeirra aldurshópi. Þar með fá nemendur einstaka innsýn inn í leikhúsið sem vinnustað.
Skólagjöld fyrir skólann 2023-2024 eru 38.000 krónur á önn.
Verkefnastjóri og kennari námsins er Vala Fannell. Vala varði áratug í London þar sem hún lærði bæði leiklist og leikstjórn. Fljótlega eftir útskrift kviknaði áhuginn á kennslu og hefur Vala lokið MA námi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Vala hefur kennt leiklist allt frá grunnskólastigi að og með háskólastigi bæði hér á landi og í London. Hún byggði upp Sviðslistabraut við Menntaskólann á Akureyri árið 2019 og kenndi við og verkefnastýrði brautinni þar til hún lét af störfum þar í vor.
Ásamt Völu koma starfsmenn úr ólíkum deildum Þjóðleikhússins að náminu í gegnum umsjón námskeiða, umræður og heimsóknir.

Markmið námsins
Störf leikhússins eru ýmis konar og margslungin. Mörg þeirra eru falin baksviðs og tækifærin til að kynna sér þau eða næra áhugan ekki á hverju strái. Námið veitir innsýn og reynslu inn í alla króka og kima leikhússins. Námið er að miklum hluta verklegt og nemendur hvattir til þess að kynna sér og prófa allt. Einn getur aldrei skapað leikhús og mikilvægi þess að kynna sér og þekkja til starfa samvinnufélaga sinna í skapandi vinnu vafalaust. Skólinn leggur áherslu á uppbyggingu einstaklingsins, færni hans til sköpunar og þar með getu hans og styrk inn í allt samstarf. Í gegnum námið öðlast nemendur:
Faglegan skilningur á leikhúsinu sem vinnustað
Sjálfstæði í hugsun
Drif og sjálfstæði til að framkvæma hugmyndir
Færni í að skipuleggja sig
Skapandi hugsun í gegnum ólíka miðla leikhússins
Tækifæri til að þroska og þróa sýn og áhuga sinn sem leikhúslistamenn
Skilning á mannlegum samskiptum í skapandi starfi
Undir lok námsins gefst nemendum tækifæri á að fá stuðning við rannsóknarvinnu og undirbúning fyrir áframhaldandi nám.
Sköpun, sjálfstæði, samvinna

Skráning í Leikhússkóla Þjóðleikhússins fyrir haustið 2023 er hafin.
Skráning í Leikhússkóla Þjóðleikhússins fyrir haustið 2023 er hafin. Tekið verður við umsóknum frá einstaklingum fæddum á árunum 2005-2007. Umsóknarfrestur er til og með 12. ágúst 2023.
Öllum umsækjendum verður boðið á kynningu um námið helgina 19. og 20. ágúst. Einungis verða umsóknir teknar til greina frá þeim sem mæta á kynningu. Þegar umsóknarfrestur er runninn út fá umsækjendur tölvupóst með nákvæmari tímasetningum á kynningu.
Umsækjendum verður skipt í 15 manna hópa og mætir hver hópur saman á kynningu sem varir í klukkustund. Þetta er ekki prufa heldur einungis tækifæri fyrir umsækjendur að kynna sér skólann betur og fyrir umsjónarmenn á sjá framan í hvern og einn. Að kynningu lokinni verða stutt einstaklingsviðtöl. Það er ekkert sem þarf að undirbúa og eru umsækjendur hvattir til að mæta með opin huga, tilbúin til að taka virkan þátt í umræðum, vera þau sjálf og njóta dagsins.
18 umsækjendur eru teknir inn ár hvert. Valið verður í hóp sem samanstendur af fjölbreyttum áhugasviðum. Lögð verður áhersla á jafnrétti og fjölbreytileika og öll eru hvött til að sækja um óháð uppruna, kyni, kynhneigð og hreyfigetu. Námið stendur einnig opið þeim ungmennum sem ekki tala íslensku, að því gefnu að góð enskukunátta sé til staðar. Umsækjendur sem telja að þeir geti treglega greitt námskeiðsgjaldið, geta sótt um að fá gjaldið fellt niður og miðar Þjóðleikhúsið við allt að fjórir einstaklingar fái niðurfelld skólagjöld ef á þarf að halda.
